Einarshöfn

BÆR ÓLAFS SNORRASONAR
EINARSHÖFN VII (1901)
EINARSHÖFN V (1910)

Byggingarár 1901

EIGENDUR
1901 Ólafur Snorrason
1929 Ólafía Ebenesersdóttir
1934 Ólöf Ólafsdóttir 1


Eitt nýrra húsa sem tekið er til virðingar árið 1901 er:

Íbúðarhús Ólafs Snorrasonar 7 álna langt 6 aln. breitt byggt af trje, með brotnu þaki járnklætt þakið og gaflarnir, veggir að miklu leiti af steini, inni er húsið alþiljað fyrir íbúð ómálað, við vestur endan er skúr, 8–3 alnir með járnþaki, á vegjum er pappi, í baðstofunni er eldavjel, geingur reikhafurinn út í skúrinn og uppúr honum, undir húsinu er kjallari steinlímdur metið kr. 750.2

Ólafur Snorrason (1844–1928) hafði verið búsettur á Eyrarbakka í áratug þegar hann byggði sér þennan bæ, en var ættaður úr Ölfusi. Hann hafði lengst af verið lausamaður hjá Gesti Ormssyni í Gestsbæ í Einarshafnarhverfinu og byggði bæ sinn á þeim slóðum.3 Eftir að hann varð sjálfra sín var hann daglaunamaður.

Lýsingin þegar húsið er virt til brunavirðingar 1916 er einfaldari:

Timburhús til íbúðar, með grjótveggjum, en gaflar úr trjé, kjallari undir öllu húsinu hlaðinn úr grjóti. Inni er húsið allt þiljað. 1 herbergi.

Við vesturgafl þess er skúr, sumpart rimlar undir járni eða kantsett borð; notaður fyrir inngang í húsið.4

Tilgátuteikning af bæ Ólafs Snorrasonar byggð á uppmælingu og lýsingu
Eiríks Gíslasonar við brunabótamat árið 1916. Horft frá suðri. MKH.

Ólöf Ólafsdóttir bjó í húsinu til 1942 en samt er það ekki á lista yfir fasteignir í hreppnum árið 1930.

ILB ©


  1. Sýslumaðurinn á Suðurlandi. Veðbókaregistur. Kauptún og þurrabúðir.
  2. ÞÍ. Endurskoðun REV. B. III. 34a.
  3. ÞÍ. Stokkseyri í Flóa / Eyrarbakki – prestakall 0000 BC/5-1-1. Sóknarmannatal 1893–1995 og 0000/BC/5-1-1. Sóknarmannatal 1895–1899.
  4. ÞÍ. Brunabótafélag Íslands 2012 Eyrarbakkaumboð, BA-0004, 1916–1920, bls. 19.