Garðhús

Halldórsbær – Pétursbær

Byggingarár: 1879

Tveggja bursta torfbær.

EIGENDUR
1879  Ísak Jónsson
1884  Halldór Gíslason
1905  Pétur Guðmundsson

 

Fáeinir torfbæir voru virtir til húsaskatts árið 1879. Einn þeirra var bær Ísaks Jónssonar (1852–1912) í Garðhúsum og honum er lýst þannig:

Torfbær lengd 9 ál. Breidd 6 álnir vel innréttaður til íbúðar.1

Ekki eru til aðrar virðingar af þessum bæ.

Halldórsbærinn um 1899–1900 austan við kirkjuna. Myndhluti
Ljósmyndari Ingimundur Eyjólfsson. Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni.

Ísak og fjölskylda hans bjó ekki lengi í bænum því hann missti eiginkonu sína sumarið 1883 og heimilið leystist upp. Næsti eigandi bæjarins var Halldór Gíslason (1853–1921) snikkari og fékk þá bærinn heitið Halldórsbær.

Enn fékk bærinn nýtt heiti af næsta eiganda þess Pétri Guðmundssyni (1858–1922) kennara og skólastjóra og var þá kallaður Pétursbær. Elísabet Jónsdóttir (1878–1969) kona Péturs lýsir Halldórsbænum þegar þau Pétur fluttu í hann með börnum sínum árið 1902, sem litlum og snotrum bæ, en hann hafi verið orðinn gamall og það hafi sést á honum. Í bænum hafi verið hlóðaeldhús, góð stofa og búr á bakvið en svefnhús uppi.2 Ekki verður annað séð af elstu ljósmynd sem þekkt er af bænum en að hann hafi verið tvær burstir með grjóthleðslu á milli. Á nýrri myndum frá Agnesi Lunn hefur grjótveggurinn vikið fyrir skúrbyggingu með inngangi sem tengir saman burstirnar tvær.

Röð Garðhúsa um 1911. Útihús frá Húsinu lengst til vinstri, Pétursbærinn, Garðhús II, Garðhús I,Sjónarhóll og hlaða frá Húsinu.
Ljósmyndari Agnes Lunn. Byggðasafn Árnesinga.

Húsið vék fyrir Péturshúsinu þegar það var byggt árið 1911.

ILB


  1. ÞÍ. Endurskoðun REV. B. III. 2. 1880.
  2. Elísabet Jónsdóttir. „Í ljósi og skugga.“ Í Vilhjálmur S. Vilhjálmsson. Fimm konur. (Reykjavík: Setberg, 1962), bls. 49.