Litla-Háeyri

Frambær

Byggingarár: 1908 / 1914

Torfbær járnvarinn en veggir úr grjóti.

EIGENDUR
1908 Jóhann Guðmundsson
1948 Guðrún Jóhannsdóttir


Við árslok 1908 er virt til húsaskatts íbúðarhús á Litlu-Háeyri. Virðingunni fylgir þessi lýsing:

Íbúðarhús Jóhanns Guðmundssonar á Litlu-Háeyri, stærð 7 ½ × 6 al hæð frá gólfi til mænis 5 al, alt járnvarið, þiljað innan með 5/8 borðum, kjallari undir öllu húsinu steinlímdur, grind af trjám 4 × 4 við vesturhlið hússins er skúr 9 × 3 ½ al allur járnvarinn, á öllu húsinu eru 3 gl. Fög 3 hurður. Metið á kr. 750.1

Frambær var í bæjarröð með Eiríksbæ og Jensbæ og var austastur bæjanna í þeirri röð. Bærinn var úr timbri með járnvörðu þaki en útveggjum úr grjóti. Bærinn sjálfur var tvær burstir með bæjardyrum og baðstofu en vestan við hann var skemma sem var í raun sjálfstætt hús.

Frambær, þrjár burstir austan við Jensbæinn. Steinhúsið á Litlu-Háeyri til hægri.
Ljósmyndari Brynjólfur G. Brynjólfsson. Byggðasafn Árnesinga.

Geymsluhúsið var byggt nokkrum árum eftir að bærinn var byggður. Það er tekið til virðingar í árslok árið 1914 og lýst þannig:

Geymsluhús Jóhanns Guðmundssonar formanns á Litlu-Háeyri stærð 9½ × 5½, byggt af timbri pappa og allt járnvarið notað til inngangs í baðstofu og geymslu. Hæð undir loft 4 ar al. Uppi geymsluloft 3½ al, á því eru 3 gl. fög 4 ar hurðir á járnum. Metið 600 kr.2

Einn hluti bæjarins, bæjardyrnar og stofan, voru endurbyggðar árið 1922, en baðstofan hélst óbreytt. Veggir voru úr grjóti og torfi. Eiríkur Gíslason lýsir nýbyggingunni þannig:

Bæjardyr og stofa 4,6 × 3,5 veggh 2,5 ris 1,7 gluggar 3 járnklætt á rimlum timbur veggur milli baðstofu port ca. 1 al að vestanverður. Þiljað í stofu eldhús og bæjardyr. Lopt einf. járn.3

Hér hefur virðing á bær verið endurnýjuð en sú regla hefur ekki verið höfð í heiðri síðar eins og sést á ljósmyndum af ýmsum bæjarhúsum með langa búsetu.

Sá sem byggði Frambæ var Jóhann Guðmundsson (1862–1948) smiður, sem stundaði einnig sjóróðra og sinnti annarri daglaunavinnu. Kona hans var Gunnvör Ólafsdóttir (1860–1940). Þau voru bæði aðflutt á Eyrarbakka úr Rangárvallasýslu. Búseta þeirra á Litlu-Háeyrartorfunni hafði staðið frá árinu 1889, oftast í bæ sem var gefið númerið III í sóknarmanntali. Þegar þetta hús var byggt hafði búseta þeirra á þessum stað varað í 20 ár. Fyrri bæir sem þau hafa búið í hafa ekki náð virðingu. Jóhann og Gunnvör bjuggu í Frambæ á meðan þau lifðu.

Eftir andlát Jóhanns eignaðist Guðrún dóttir hans bæinn, en hann var rifinn um 1960.


  1. ÞÍ. Hin umboðslega endurskoðun 15. Manntalsreikningar 1909.
  2. ÞÍ. Hin umboðslega endurskoðun 30. Manntalsreikningar 1915.
  3. Eiríkur Gíslason. Brunabótamat á Eyrarbakka 1916–1929. Ljósrit í fórum höfunda.