Garðhús

Péturshús

Byggingarár: 1911

Timburhús á einni hæð með risþaki og skúr við langhlið.

EIGENDUR
1911 Pétur Guðmundsson
1922 Elísabet Jónsdóttir


Péturshúsið var reist á grunni bæjar sem ýmist var nefndur Halldórsbær eða Pétursbær. Pétur Guðmundsson kennari og Elísabet Jónsdóttir, sem þar höfðu búið, létu byggja húsið fyrir fjölskyldu sína.

Úttekt Eiríks Gíslasonar frá 1916 á húsinu fyrir Brunabótafélagið er þannig:

Timburhús 7,5 × 4, vegghæð 2,7, ris 1. Járnklætt rimlar á þaki. Borðaklæðning á veggjum. Ekkert loft 2 herbergi og eldhús. 1 eldavjel 50 kr. Sementsrör kjallari úr grjóti og steipu. Geimsluskúr 7,5 × 3 hæð 2,5. Rimlar undir járni á þaki. Borðaklæddir veggir með gömlu undirjárni. Þiljaður eptir endilöngu í gang með trégólfi og geimslu gólflausri.1

Péturshúsið til vinstri. Næst Garðhús 2, Frímannshús, hlaða frá Húsinu, Garðhús 1, Jónasarhús, bak við hana, þá Sjónarhóll og Ingólfur. Myndhluti.
Ljósmyndari Aðalsteinn Sigmundsson. Byggðasafn Árnesinga.

Eftir að Pétur lést og Elísabet var flutt til Reykjavíkur leigðu Hannes Andrésson og Jóhanna Bernharðsdóttir húsið um árabil. Það hafði staðið autt í nokkur ár áður en það var rifið veturinn 1935.2

Tilgátuteikning af Péturshúsinu byggð á uppmælingu og lýsingu Eiríks Gíslasonar við brunabótamat árið 1916. MKH.

  1. Eiríkur Gíslason. Brunabótamat á Eyrarbakka 1916–1929. Ljósrit í fórum höfunda.
  2. ÞÍ. Brunabótafélag Íslands 2012 Eyrarbakkaumboð, BA-0004, 1916–1920, bls. 63.