Húsafriðunarsjóður – úthlutun viðbótarframlags

Úr Eyrarbakkakirkju. Ljósm.: MKH

Þáttur í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að vinna gegn samdrætti vegna Covid-faraldursins var að veita 100 milljón króna viðbótarframlag í húsafriðunarsjóð, sem nýta skyldi til að veita styrki í atvinnuskapandi verkefni á svæðum sem verða fyrir hvað mestum efnahagslegum þrengingum vegna faraldursins. Mennta- og menningarráðuneytið fól Minjastofnun Íslands að ákveða verklag við úthlutun 60 milljón króna af þeirri upphæð í samráði við húsafriðunarnefnd, en 40 milljónir runnu til Húsasafns Þjóðminjasafns Íslands.

Í ljósi aðstæðna þótti ekki raunhæft að opna fyrir umsóknir um ný verkefni, heldur var ákveðið að líta til þeirra verkefna sem sótt var um styrki til á síðasta umsóknartímabili og mat hefur verið lagt á. Þeim verkefnum var gefin einkunn með tilliti til eftirtalinna matsþátta: efling atvinnulífs, samfélagslegt mikilvægi, gildi frá sjónarhóli minjavörslu og fagleg gæði verkáætlunar. Litið var sérstaklega til verkefna sem ráðast má í strax og ljúka á þessu sumri.

Minjastofnun hefur ákveðið í samráði við húsafriðunarnefnd að veita styrki til 36 verkefna. Flestir styrkirnir eru hækkun á áður veittum styrk, en fjórir styrkjanna eru til verkefna sem ekki var unnt að styrkja í fyrri úthlutun úr sjóðnum, en voru engu að síður talin mjög verðug verkefni.

Eyrarbakkakirkja fékk í þessari viðbótarúthlutun 2 m.kr. til viðbótar við þær 2 m.kr. sem úthlutað var fyrr á árinu til þess að mála kirkjuna að utan. Vonir standa til þess að hægt verði að ljúka við málun kirkjunnar í sumar.

(Byggt á frétt á vef Minjastofnunar Íslands.)