Húsafriðunarsjóður – úthlutun viðbótarframlags

Úr Eyrarbakkakirkju. Ljósm.: MKH

Þáttur í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að vinna gegn samdrætti vegna Covid-faraldursins var að veita 100 milljón króna viðbótarframlag í húsafriðunarsjóð, sem nýta skyldi til að veita styrki í atvinnuskapandi verkefni á svæðum sem verða fyrir hvað mestum efnahagslegum þrengingum vegna faraldursins. Mennta- og menningarráðuneytið fól Minjastofnun Íslands að ákveða verklag við úthlutun 60 milljón króna af þeirri upphæð í samráði við húsafriðunarnefnd, en 40 milljónir runnu til Húsasafns Þjóðminjasafns Íslands.

Í ljósi aðstæðna þótti ekki raunhæft að opna fyrir umsóknir um ný verkefni, heldur var ákveðið að líta til þeirra verkefna sem sótt var um styrki til á síðasta umsóknartímabili og mat hefur verið lagt á. Þeim verkefnum var gefin einkunn með tilliti til eftirtalinna matsþátta: efling atvinnulífs, samfélagslegt mikilvægi, gildi frá sjónarhóli minjavörslu og fagleg gæði verkáætlunar. Litið var sérstaklega til verkefna sem ráðast má í strax og ljúka á þessu sumri.

Minjastofnun hefur ákveðið í samráði við húsafriðunarnefnd að veita styrki til 36 verkefna. Flestir styrkirnir eru hækkun á áður veittum styrk, en fjórir styrkjanna eru til verkefna sem ekki var unnt að styrkja í fyrri úthlutun úr sjóðnum, en voru engu að síður talin mjög verðug verkefni.

Eyrarbakkakirkja fékk í þessari viðbótarúthlutun 2 m.kr. til viðbótar við þær 2 m.kr. sem úthlutað var fyrr á árinu til þess að mála kirkjuna að utan. Vonir standa til þess að hægt verði að ljúka við málun kirkjunnar í sumar.

(Byggt á frétt á vef Minjastofnunar Íslands.)

Húsafriðunarsjóður

Á vef Minjastofnunar Íslands hefur nú verið birt frétt um úthlutun styrkja úr húsafriðunarsjóði 2020. Veittir eru 228 styrkir að þessu sinni að upphæð 304.000.000 kr.  Alls bárust 283 umsóknir til Minjastofnunar, þar sem sótt var um rétt rúmlega einn milljarð króna.

Veitt var styrkjum til 12 verkefna á Eyrarbakka. Þau eru:

HúsByggingarárStyrkir
Eyrarbakkakirkja18902.000.000 kr.
Húsið17651.500.000 kr.
Assistentahúsið18811.100.000 kr.
Búðarstígur 10b19005.000.000 kr.
Gunnarshús1888/19151.200.000 kr.
Kirkjuhús1879/1897700.000 kr.
Jakobsbær / Einarshöfn IV1913700.000 kr.
Prestshúsið / Einarshöfn II1906500.000 kr.
Sandvík II1900500.000 kr.
Tjörn1905700.000 kr.
Garðbær 1897400.000 kr.
Káragerði1900400.000 kr.
Samtals14.700.000 kr.
Þar sem tilgreind eru tvö ártöl hefur húsi verið breytt verulega.
Hús í Skúmsstaðahverfi á Eyrarbakka.

Vorið er komið

Loksins er vorið að láta á sér kræla eftir langan og erfiðan vetur.

Það var fallegt að ganga um fjöruna vestan við Eyrarbakka í gærkvöldi og draga að sér heilnæmt sjávarloftið við þessar fordæmalausu aðstæður sem nú ríkja í landinu og reyndar um heim allan.

Það var einstaklega róandi að vafra um í kvöldkyrrðinni og njóta sólarlagsins. Eyrarbakkafjara er tilvalinn staður fyrir útivist – en munum að halda öruggri fjarlægð við næsta mann.

Fjöruferð 27. mars 2020

Heimsending frá Bakkanum

Man Giving Paper Bag To Woman

Verslunin Bakkinn mun bjóða íbúum á Eyrarbakka endurgjaldslausa heimsendingarþjónustu á vörum eftir kl. 19:00 alla daga meðan ófremdarástand vegna kórónaveirunnar varir. Miðað er við að verslað sé fyrir 3.000 kr. eða meira.
Mögulegt verður að greiða með korti við afhendingu.
Upplýsingar í síma 864 5712.

Eggert Valur Guðmundsson